Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Vísun nemanda úr framhaldsskóla vegna hegðunar

Ár 2015, fimmtudaginn 10. desember, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Kæruefnið

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst þann 4. febrúar 2015 erindi A og B, f.h. barns síns, C (hér eftir nefndur kærandi), sem þá var nemandi við [skólann] D. Í erindinu var vísað til þess að kæranda hafi verið vikið úr D 30. janúar 2015 og hafi ákvörðunin verið tekin í kjölfar þess að kærandi varð uppvís að broti gegn skólasystur sinni með því að setja óviðeigandi myndskeið af henni á fésbókarsíðu.

 

Í erindi kæranda var sett fram beiðni um að athugað yrði hvort atvik væri brot á skólareglum, eins og það er orðað í erindinu. Einnig var óskað eftir því að athugað yrði hvort skólinn hefði farið út fyrir valdsvið sitt með þessari ákvörðun. Þá óskaði kærandi eftir því að honum yrði úthlutað plássi í öðrum skóla þar sem hann væri undir 18 ára aldri og var óskað eftir því að hann kæmist inn í [skóla] E. Að mati ráðuneytisins var talið að ráða mætti af erindi kæranda að það fæli í raun í sér stjórnsýslukæru og skyldi því meðhöndlað sem slíkt.

 

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 23. febrúar 2015, var óskað umsagnar D um erindið og var veittur tveggja vikna umsagnarfrestur í því skyni. Skólinn óskaði eftir framlengdum fresti til 20. mars sl. og féllst ráðuneytið á þá beiðni.

 

Umsögn D barst þann 25. mars 2015. Í umsögn sinni krafðist skólinn þess að kröfum kæranda yrði hafnað. Þá var þess krafist að ákvörðun D, dags. 12. febrúar 2015, þess efnis að vísa kæranda úr skólanum yrði staðfest.

 

Umsögnin var send til kæranda með bréfi ráðuneytisins, dags. 25. febrúar, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, mótt. 8. apríl sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 11. júní sl., var kæranda tilkynnt um að fyrirsjáanlegar tafir yrðu á afgreiðslu málsins og greint frá ástæðum tafanna.

 

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn þess.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Í erindi kæranda, ódagsettu, er sett fram stutt lýsing á forsögu málsins eins og hún horfir við kæranda og beiðni um að athugað verði hvort atvik sé brot á skólareglum og hvort skólinn hafi farið út fyrir valdsvið sitt með framangreindri ákvörðun. Þá er sett fram ósk um að kæranda verði úthlutað plássi í öðrum skóla, einkum E.

 

II.

Í umsögn skólameistara D eru málavextir raktir í stuttu máli auk þess sem gerðar eru athugasemdir við málavaxtalýsingu kæranda. Vísað er til upphafs málsins, eins og því er lýst af skólans hálfu, þar sem tilkynning hafi borist þann 27. janúar 2015 um nemanda í skólanum, stúlku, sem væri í nokkru uppnámi. Eftir að rætt hafði verið við hana hafi komið í ljós að tveir piltar hefðu birt af henni annars vegar mynd og hins vegar myndskeið fáklæddri á fésbókarsíðu og hafi annar þeirra verið kærandi í máli þessu. Kærandi hafi birt myndskeið af stúlkunni og sér í [kynferðislegum athöfnum] án hennar leyfis. Sá atburður hafi átt sér stað afsíðis á […] í janúar sama ár. Kvaðst stúlkan vera með […] eftir atburðinn. Námsráðgjafi hafi bent stúlkunni á að […]. Þann 29. janúar hafi aðstandendur kæranda verið boðaðir á fund í skólanum og þeim kynnt málið. Lögreglunni hafi áður verið kynnt málið og veittar upplýsingar um nafn kæranda og bent á umrædda fésbókarsíðu. Á fundi 30. janúar hafi aðstandendum verið afhent bréf þar sem fram hafi komið að kæranda væri vísað úr skólanum vegna brots gegn skólasystur sinni með því að birta óviðeigandi myndskeið af henni á fésbók. Í bréfinu hafi þó verið tekið fram að hefði kærandi athugasemd við brottreksturinn gæti hann andmælt með bréfi til skólans fyrir 13. febrúar 2015. Kærandi hafi sent skólanum bréf, dags. 9. febrúar 2015, þar sem ákvörðunni var andmælt. D hafi svarað andmælabréfi kæranda með bréfi, dags. 12. febrúar, þar sem kæranda var jafnframt tilkynnt um ákvörðun skólans um að vísa kæranda úr D á þeirri önn.

 

Í þeim kafla umsagnar D þar sem fjallað er um málsástæður er því haldið fram að kærandi hafi brotið gegn lögum um framhaldsskóla og skólareglum D. Vísar skólinn til 4. mgr. 33. gr. a. laga um framhaldsskóla, þar sem skýrt komi fram að skólameistari geti vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið á meðan mál skv. 3. mgr. sömu greinar er til meðferðar, enda tilkynni hann nemandanum og foreldrum hans sé hann yngri en 18 ára, tafarlaust þá ákvörðun. Telur D ljóst að á grundvelli 4. mgr. 33. gr. a. laganna hafi skólanum verið það heimilt, enda hafi kæranda verið tilkynnt um það tafarlaust þegar ákvörðun lá fyrir, sbr. bréf dags. 12. febrúar 2015. Þá vísar D til 33. gr. sömu laga, þar sem nánar er fjallað um rétt nemenda og markmið með því ákvæði, sbr. 1. gr. laga nr. 68/2012, um breytingu á lögum um framhaldsskóla, en þau markmið lúti m.a. að því að styrkja réttindi nemenda ásamt því að leggja áherslu á ábyrgð nemenda á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum við aðra, sem og að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, félagslegu og andlegu ofbeldi. Þá er vísað til 33. gr. b laga um framhaldsskóla og umgengnisreglna skólans, sem fjallað er um í skólareglum sem skólinn hefur sett sér. Tekið er fram í umsögn skólans að um atvikið og háttsemi kæranda gildi m.a. lög um framhaldsskóla og skólareglur skólans sem settar séu á grundvelli þeirra laga. Telur skólinn að sér hafi verið skylt að bregðast við háttsemi kæranda á grundvelli 33. gr. laganna, framhaldsskólum sé skylt að haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og taka tillit til sjónarmiða nemenda eins og unnt er. Fyrir lægi í þessu máli að einn nemandi hafi verið í verulegu uppnámi sökum birtingar myndbands af kæranda og nemandanum í [kynferðislegum athöfnum], án hennar leyfis. D hafi borið skylda til þess að beita sér í máli þessu svo að viðkomandi nemandi og nemendur sínir fyndu til öryggis í skólanum. Vísar D til þess að lagðar hafi verið auknar áherslur á jákvæða andlega, líkamlega og félagslega vellíðan nemenda með lögum nr. 68/2012, um breytingu á lögum um framhaldsskóla, auk þess að nemendur fyndu til öryggis í framhaldsskóla. Samhliða því hafi verið lagðar auknar áherslur á að nemendur virtu þær skyldur sem fylgdu námsvist í framhaldsskóla og þær reglur sem þar giltu, sem og eigin ábyrgð nemenda á framkomu sinni við aðra.

 

Telur D sig hafa farið eftir málsmeðferðarreglum skólans, þar sem mælt er fyrir um að veita skuli nemendum skriflega áminningu áður en til refsingar komi, nema brotið sé þess eðlis að því verði ekki við komið, s.s. brot á almennum hegningarlögum. Að mati skólans hafi brot kæranda verið þess eðlis að það gaf ekki tilefni til að veita kæranda skriflega áminningu eða reyna mildari leiðir áður. Ákvörðun skólans sé byggð á lögum um framhaldsskóla, sbr. 4. mgr. 33. gr. a. laga um framhaldsskóla og 33. gr. sömu laga, sbr. lög nr. 68/2012, um breytingu á lögum um framhaldsskóla. Vísar D einnig til almennra athugasemda við frumvarp það er varð að lögum nr. 68/2012 sem og 33. gr. b. laga um framhaldsskóla. Þá er í umsögn D vísað til skólareglna skólans sem byggjast á fyrrnefndum lögum og skólanum því heimilt að byggja ákvörðun sína á þeim. Vísað er til ákvæða í skólareglum D, sem settar hafa verið á grundvelli 3. mgr. 33. gr. b. laga um framhaldsskóla, þar sem m.a. kemur fram að gagnkvæm virðing og kurteisi skuli ríkja milli starfsfólks og nemenda í skólanum, sýna beri háttvísi og prúðmennsku allsstaðar þar sem komið er fram í nafni skólans, sbr. […]. gr. umgengnisreglna skólans og að ósæmileg hegðun, ónæði og ókurteisi gagnvart starfsfólki skólans og skólafélögum geti leitt til áminningar og jafnvel brottvísunar, sbr. […] gr. Þá er tekið fram í umsögn D að fyrir liggi viðurkenning kæranda í málinu að hafa birt myndband af sér og skólasystur sinni í [kynferðislegum athöfnum], án hennar samþykkis, á fésbókarsíðu […] karlkyns nemenda skólans. Að mati forsvarsmanna D hefur kærandi með háttsemi sinni brotið gegn friðhelgi og æru samnemanda síns og mögulega brotið gegn þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem fjalla um kynferðisbrot, ærumeiðingum og brot gegn friðhelgi einkalífs. Lítur D alvarlegum augum á framangreinda háttsemi kæranda gegn samnemanda sínum og telur að líta verði á hana í því ljósi að slíkar myndir sem settar eru á netið geti verið mjög erfitt ef ekki ómögulegt að eyða af netinu. Þá geti hver þeirra sem einu sinni hafi haft aðgang að slíkri mynd vistað hana og mögulega dreift síðar. Um sé að ræða alvarlega og vanhugsaða háttsemi sem haft geti alvarlegar afleiðingar fyrir þann sem í lendir. D vísar til þess að ákvörðun um brottvísun kæranda hafi byggst á 4. mgr. 33. gr. laga um framhaldsskóla og grundvöll þeirrar ákvörðunar megi rekja til þess að skólastjórnendur töldu háttsemi kæranda fara gegn ákvæðum laga um framhaldsskóla og skólareglum skólans. Máli kæranda hafi verið vísað til umsagnar skólaráðs sem fjallaði um málið áður en stjórnendur skólans tóku afstöðu til málsins og niðurstaða þess hafi verið að víkja bæri nemandanum úr skólanum á yfirstandandi önn. Litið hafi verið svo á að með birtingu myndbands af kæranda og stúlkunni í [kynferðislegum athöfnum] hafi kærandi brotið með alvarlegum hætti gegn friðhelgi og æru samnemanda síns og mögulega einnig gegn ákvæðum í XXII.  eða XXV. kafla almennra hegningarlaga. Brotið hafi því verið þess eðlis að það hafi ekki gefið tilefni til að veita kæranda skriflega áminningu áður en gripið var til brottvísunar. D hafi þannig farið alfarið eftir málsmeðferðarreglum skólans og stjórnsýslulögum við meðferð málsins og ákvarðanatöku.

 

III.

Í athugasemdum foreldra fyrir hönd kæranda, mótt. 8. apríl 2015, er farið yfir málavexti frá sjónarhóli kæranda. Þar kemur m.a. fram að kærandi hafi tekið fyrrnefnt myndbrot á símann sinn afsíðis á […] D, með samþykki og vitund beggja aðila. Myndbrotið hafi verið inni á síðunni í um eina og hálfa klukkustund og kærandi síðan tekið það strax út er hann hafði áttað sig á alvarleika málsins. Þá hafi hann beðið stúlkuna afsökunar á myndbirtingunni og þau verið í samskiptum eftir atburðinn, sem hafi verið góð að sögn foreldra. Þá hafi þau fengið símtal frá aðstoðarskólameistara D þann 29. janúar 2015 þar sem þeim hafi verið tilkynnt um atvikið og fundur haldinn samdægurs í skólanum að beiðni foreldra og hafi þá verið viðstaddir, auk þeirra, skólameistari, aðstoðarskólameistari og kærandi, sem rakið hafi málavexti. Næsta dag hafi foreldrar verið boðaðir á fund í skólanum og þeim afhent skjal um að kæranda væri vikið úr skólanum af framangreindu tilefni, en um leið tekið fram í bréfi skólans að hefði kærandi eitthvað við þetta að athuga gæti hann sent bréf til skólans fyrir 13. febrúar 2015. Í athugasemdum foreldra kemur fram að þau hafi nýtt sér andmælarétt sinn og hafi þeim svo borist staðfesting á ákvörðun skólans um brottvísun kæranda með bréfi, dags. 12. febrúar 2015. Þá víkja foreldrar að samtölum sínum við aðstoðarskólameistara og innihaldi þeirra samtala. Ítreka foreldrar að þau eigi upptökur af þessum samtölum, óski ráðuneytið eftir því. Af þessu tilefni þykir rétt að taka það fram að ráðuneytið fær ekki séð að innihald þeirra samtala kunni að hafa þýðingu við úrlausn kærumáls þessa, en telur hins vegar rétt að vekja athygli á því að þeim aðila sem vill hljóðrita símtal er skylt, í upphafi símtalsins, að tilkynna viðmælanda sínum um þá fyrirætlun sína, samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti. Í athugasemdum foreldra kemur ekki fram hvort það hafi verið gert í þeim tilvikum sem þar eru tilgreind. Þá er í athugasemdunum vikið að því hvort umrædd stúlka hafi verið í uppnámi eftir birtingu myndskeiðsins og velta því upp hver staðfesti ástand stúlkunnar, hvort það sé mat sálfræðings, skólastjóra eða námsráðgjafa á tilteknum tíma. Vísa foreldrar til þess að vitni hafi séð stúlkuna þennan sama dag í ágætis jafnvægi, eins og komist er að orði í athugasemdum foreldra. Þá vísa foreldrar til þess að upplýsingar um að stúlkan hafi sagst vera með […] eftir atburðinn, og að námsráðgjafi hafi bent henni á að […] hafi ekki borist foreldrum fyrr en skólinn sendi staðfestingu á ákvörðun sinni í máli kæranda þann 12. febrúar 2015. Það bréf hafi hins vegar verið leiðrétt í öðru bréfi frá skólanum, dags. sama dag, þar sem umræddar upplýsingar höfðu þá verið teknar út eftir samtal aðstoðarskólameistara við móður kæranda þar sem þetta atriði hafi aldrei verið rætt við foreldra og ekki verið partur af þeirri ákvörðun sem tekin var af skólaráði. Þá efast foreldrar um að valdsvið skólans nái út fyrir veggi hans og ef brot gegn nemanda gerist utan skólans sem hafi verið tilfellið í þessu máli telji þau það ekki vera skólans að dæma í því. Þá taka foreldrar fram að erindi þeirra til ráðuneytisins sé byggt á þeirri ákvörðun sem skólinn tók þann 30. janúar 2015. Þá hafi skólinn meinað kæranda um aðgöngu að námi í ljósi þess að ákvörðun skólans hafi ekki legið fyrir fyrr en 12. febrúar 2015, en um slíka ákvörðun gildi ákvæði stjórnsýslulaga, og ekki verið leiðbeint um mögulega endurkomu kæranda í framhaldsskóla. Þannig hafi D brotið gegn lögum um framhaldsskóla og eigin skólareglum. Þá vísa foreldrar til umfjöllunar í umsögn skólans um lög nr. 68/2012, um breytingu á lögum um framhaldsskóla, og telja þau að D hafi þannig brotið á rétti kæranda þar sem aldrei hafi verið hugað að velferð hans eða líðan. Þá draga foreldrar í efa að skólanum hafi borið skylda til að beita sér svo nemendur fyndu til öryggis í skólanum og telur að skólinn sé þannig að álykta að nemendur hafi fundið til óöryggis vegna þessa máls. Þá gera foreldrar athugasemd við það að D telji að fyrrgreind háttsemi kæranda brjóti gegn 1. mgr. 33. gr. laga um framhaldsskóla, með því að viðhalda ekki góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Líta foreldrar það alvarlegum augum að forsvarsmenn D skulu ýja að því að kærandi hafi mögulega brotið gegn ákvæðum í XXII. kafla almennra hegningarlaga og skólinn sé ekki eitt af dómstigum landsins.

 

Rökstuðningur niðurstöðu.

I.

Hvað varðar kæruheimild í máli þessu vísast til 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 4. gr. og 5. mgr. 33. gr. a. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

 

Í V. kafla laga um framhaldsskóla er kveðið á um námskrá og námsbrautir og fjallar 21. gr. um aðalnámskrá. Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. eru í almennum hluta útfærðir starfshættir og markmið framhaldsskóla og skal almennur hluti m.a. innihalda almennar reglur um réttindi og skyldur nemenda og meðferð ágreiningsmála, sbr. j. lið. Í 22. gr. er mælt fyrir um það að sérhver framhaldsskóli skuli gefa út skólanámskrá, sem skiptist í tvo hluta, almennan hluta og námsbrautarlýsingar. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. er mælt fyrir um að í skólanámskrá skuli m.a. gerð grein fyrir réttindum og skyldum nemenda. Í 33. gr. a. laganna er fjallað um ábyrgð nemenda og málsmeðferð er hegðun nemanda reynist verulega áfátt. Í 33. gr. b. er fjallað um skólabrag. Í 3. mgr. er mælt fyrir um það að hver skóli skuli setja sér skólareglur og birta þær í skólanámskrá. Í reglunum skuli m.a. kveðið á um hegðun og almenna umgengni, samskipti, heilbrigðar lífsvenjur, skólasókn, námsframvindu, meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga. Í 14. kafla almenna hluta aðalnámskrár framhaldsskóla 2011 er fjallað um réttindi og skyldur. Í kafla 14.7 í aðalnámskrá er fjallað um skólareglur, sem birtar skulu í skólanámskrá og geyma ákvæði um skólasókn, hegðun og umgengni, námsmat, námsframvindu og prófareglur, viðurlög vegna brota á skólareglum og reglur um meðferð ágreiningsmála og um beitingu viðurlaga. Er þar einnig tekið fram að við ákvörðun skólameistara um rétt eða skyldu nemenda skuli fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Í kafla 14.7.2 er fjallað um meðferð ágreiningsmála og kemur þar fram að við vinnslu slíkra mála skuli gæta ákvæða stjórnsýslulaga um málsmeðferð.

 

Í 33. gr. laga um framhaldsskóla er mælt fyrir um að framhaldsskóli er vinnustaður nemenda og að framhaldsskóli skuli í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Þess skuli jafnframt gætt við skipulag skólastarfs að virt séu almenn vinnuverndarsjónarmið. Þá skuli tekið tillit til sjónarmiða nemenda eins og unnt sé. Í 33. gr. a. er mælt fyrir um að nemendur beri ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum. Nemendum beri að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks framhaldsskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur. Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber skólanum samkvæmt 3. mgr. 33. gr. a. að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans sé hann yngri en 18 ára. Meðan mál samkvæmt 3. mgr. 33. gr. a. eru óútkljáð getur skólameistari vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann nemandanum, og foreldrum hans sé hann yngri en 18 ára, tafarlaust þá ákvörðun, sbr. 4. mgr. 33. gr. a. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Samkvæmt 33. gr. b. ber öllum aðilum skólasamfélagsins að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. b. skal hver skóli setja sér skólareglur og birta þær í skólanámskrá. Í reglunum skal m.a. kveðið á um hegðun og almenna umgengni, samskipti, heilbrigðar lífsvenjur, skólasókn, námsframvindu, meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga. Samkvæmt 4. mgr. skulu framhaldsskólar hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi.

 

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi varð uppvís að broti gegn skólasystur sinni með því að birta myndskeið af henni í [kynferðislegum athöfnum] við kæranda á fésbókarsíðu […] karlkyns nemenda D. Liggur jafnframt fyrir að myndbirting þessi var án samþykkis umræddrar stúlku. Skólastjórnendum barst vitneskja um þessa háttsemi kæranda þann 27. janúar 2015, sem og að stúlkan væri í nokkru uppnámi af þessum sökum. Skólastjórnendur funduðu með foreldrum og kæranda 29. janúar, þar sem hann játaði að hafa birt umrætt myndskeið, og næsta dag var þeim afhent bréf þess efnis að kæranda væri vísað úr skólanum vegna framangreinds brots gegn skólasystur sinni, en þó tekið fram að hefði kærandi athugasemd við brottreksturinn gæti hann andmælt því með bréfi til skólans fyrir 13. febrúar 2015. Þá hafi lögreglu verið kynnt málið, veittar upplýsingar um nafn kæranda og bent á umrædda fésbókarsíðu. […].

 

Með bréfi kæranda, dags. 9. febrúar 2015, var ákvörðun skólans um að víkja kæranda úr skólanum andmælt. Með bréfi D, dags. 12. febrúar 2015, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun skólans að vísa kæranda úr D á yfirstandandi önn.  Í umsögn D er bent á að hin endanlega ákvörðun í málinu hafi ekki legið fyrir fyrr en 12. febrúar 2015, eftir að kærandi hafði andmælt hinni fyrirhuguðu ákvörðun um brottvísun, og lítur D því svo á að kærandi sé að kæra hina endanlegu ákvörðun sína frá 12. febrúar 2015 en ekki hina fyrirhuguðu ákvörðun frá 30. janúar 2015. Kærandi heldur því hins vegar fram að hann sé að kæra ákvörðun skólans frá 30. janúar 2015. Í máli þessu liggur fyrir að skólastjórnendur funduðu með kæranda og foreldrum hans vegna þessa máls áður en ákvörðun skólans frá 30. janúar var kynnt þeim. Þá var jafnframt tekið fram í því bréfi að kærandi hefði andmælarétt til 13. febrúar 2015, sem kærandi nýtti sér. Í bréfi skólans, dags. 12. febrúar sama ár, var svo tilkynnt um hina endanlegu ákvörðun skólans. Verður því litið svo á að brottvikning kæranda úr skólanum sem stóð yfir frá 30. janúar til 12. febrúar 2015 hafi verið tímabundin og andmælaréttar kæranda hafi verið nægilega gætt að þessu leyti.

 

Í framhaldsskólalögum nr. 92/2008, með síðari breytingum, og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum, er nánar kveðið á um rétt nemenda til skólavistar og lögmætar takmarkanir á þeim rétti. Eins og mælt er fyrir um í áður tilvitnuðum ákvæðum laga um framhaldsskóla eiga nemendur rétt á að finna til öryggis á vinnustað sínum, að virt séu almenn vinnuverndarsjónarmið og að tillit sé tekið til sjónarmiða þeirra eins og unnt er. Þá bera nemendur ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum, þeim ber að fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur. Þannig ber jafnframt öllum aðilum skólasamfélagsins að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Að mati ráðuneytisins verður ekki dregið í efa það mat skólastjórnenda að háttsemi kæranda var til þess fallin að draga úr góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Þá telur ráðuneytið ekki ástæðu til að draga í efa upplýsingar skólastjórnenda D um að umrædd stúlka hafi verið í uppnámi vegna þessa atburðar, en telur um leið að athugasemdir þar að lútandi hafi ekki þýðingu við úrlausn kærumáls þessa þar sem horfa verður til alvarleika háttsemi kæranda í þessu sambandi við mat á því hvort háttsemi hans hafi lögum samkvæmt gefið skólastjórnendum nægilegt tilefni til brottvísunar kæranda úr skólanum. Hvað varðar athugasemdir foreldra er lúta að umfjöllun í umsögn skólans um lög nr. 68/2012, um breytingu á lögum um framhaldsskóla, þar sem þau telja að D hafi brotið á rétti kæranda þar sem aldrei hafi verið hugað að velferð hans eða líðan, þá telur ráðuneytið að þar gæti nokkurs misskilnings í umfjöllun foreldra að þessu leyti þar sem skyldur skóla, þegar um bein brot gegn einstökum nemendum er að ræða, beinast fyrst og fremst að þeim nemanda sem brot beinist gegn, og er þá jafnframt rétt að viðbrögð skóla taki mið af þeim skyldum sem á honum hvíla um að stuðla að góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Samkvæmt 33. gr. b. laga um framhaldsskóla skal hver skóli setja sér skólareglur og birta þær í skólanámskrá og eru í ákvæðinu taldir upp í dæmaskyni þeir þættir sem kveða skal á um í reglunum. Þá er í 4. mgr. 33. gr. b. tekin skýr afstaða gegn líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi í skólum. Í skólareglum skólans er kveðið á um umgengnisreglur og segir í […] lið þeirra að gagnkvæm virðing og kurteisi skuli ríkja milli starfsfólks og nemenda í skólanum og sýna beri háttvísi og prúðmennsku allsstaðar þar sem komið er fram í nafni skólans. Í […] lið kemur fram að ósæmileg hegðun, ónæði og ókurteisi gagnvart starfsfólki skólans og skólafélögum geti leitt til áminningar og jafnvel brottvísunar. Þá er jafnframt tekið fram að brot á reglum skólans geti leitt til brottvísunar og forráðamönnum ólögráða nemenda sé gert viðvart svo þeir geti nýtt andmælarétt sinn. Einnig segir um tölvunotkun nemenda að þeim sé stranglega bannað að senda óviðeigandi póst og símskilaboð úr tölvum sínum eða tölvum skólans. Þá segir í skólanámskrá skólans að veita skuli nemendum skriflega áminningu áður en til refsingar kemur nema brotið sé þess eðlis að því verði ekki við komið, s.s. brot á almennum hegningarlögum. Að mati ráðuneytisins gat umrædd háttsemi þannig ekki talist í samræmi við almennar umgengnisreglur né heldur til þess fallin að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Í ljósi framangreindra laga- og reglugerðarákvæða og skólareglna D, og að teknu tilliti til þess að umrætt myndskeið var tekið upp á […] D og deilt á fésbókarsíðu […] karlkyns nemenda skólans, þá er það mat ráðuneytisins að hin kærða ákvörðun rúmist innan valdsviðs skólans. Þrátt fyrir það að kærandi hafi að eigin sögn tekið fyrrnefnt myndskeið af skólasystur sinni út af netinu um einum og hálfum tíma síðar verður ekki horft fram hjá því að hann mátti gera sér grein fyrir því að myndbirtingin var særandi fyrir þá stúlku sem fyrir henni varð og með henni hafi kærandi ekki fylgt almennum umgengnisreglum. Þá hafi þessi háttsemi kæranda verið ósæmileg og til þess fallin að raska andlegu og félagslegu öryggi stúlkunnar. Þá hafi kærandi með þessu ekki sýnt samnemanda sínum þá virðingu og kurteisi sem honum bar samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga um framhaldsskóla og skólareglum skólans. Telst myndbirting þessi því ekki í samræmi við áður tilvitnuð ákvæði laganna og skólareglur skólans. Með myndbirtingunni á netinu gafst öðrum jafnframt kostur á að hlaða myndskeiðinu niður og birta síðar og verður því tekið undir það með skólanum að afleiðingarnar af þessari háttsemi kæranda kunna að vera ófyrirsjáanlegar fyrir þá stúlku sem í hlut átti. Að mati ráðuneytisins var framangreind háttsemi kæranda alvarlegs eðlis og andstæð framangreindum lagaákvæðum og þeim áherslum sem liggja þeim til grundvallar, sem og ákvæðum skólareglna skólans. Var skólanum jafnframt skylt að taka réttmætt tillit til hagsmuna samnemenda að þessu leyti, eins og mælt er fyrir um í framangreindum ákvæðum framhaldsskólalaga og skólareglum skólans.

 

Hvað varðar þá kröfu kæranda að honum verði útveguð skólavist í öðrum framhaldsskóla, þá mun það þegar hafa verið gert með aðkomu til þess bærs stjórnvalds, en sú krafa fellur ekki undir lögsögu ráðuneytisins og ber því að vísa henni frá í úrskurði þessum.

 

Með hliðsjón af öllu framansögðu verður að telja að hin kærða ákvörðun byggi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum og því ber að staðfesta hana eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun skólameistara D um brottvísun kæranda, C, úr D á vorönn 2015, sem tilkynnt var um í bréfum, dags. 30. janúar 2015 og 12. febrúar sama ár, er staðfest. Kröfu kæranda um að honum verði útveguð skólavist í öðrum framhaldsskóla er vísað frá ráðuneytinu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum